Raunkostnaður viðgerða vegna galla bættur

birt 13. október 2023

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur kveðið upp dóm í máli kaupenda fasteignar sem töldu að eignin hefði verið haldin galla. Kaupendurnir öfluðu matsgerðar um galla og kostnað vegna viðgerða á þeim. Í kjölfarið höfðuðu kaupendur dómsmál til innheimtu hins metna kostnaðar enda höfðu seljendur ekki fallist á að um galla væri að ræða sem þeir bæru ábyrgð á. Undir rekstri málsins fóru fram viðgerðir á fasteigninni sem reyndust dýrari en matsmaður hafði metið. Héraðsdómur féllst á að um galla hefði verið að ræða og að seljendum eignarinnar bæri að greiða aukinn viðgerðarkostnað, umfram það sem matsmaður hafði áður metið.

Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður flutti málið fyrir hönd kaupenda eignarinnar.