Samningur

Málsóknarfélagið hefur falið Landslögum að reka málið fyrir hönd félagsins. Hér að neðan má sjá samning málsóknarfélagsins við Landslög.

Málsóknarfélagið Hluthafar Landsbanka Íslands, Borgartúni 26, 105 Reykjavík („málsóknarfélagið“) og Landslög slf., kt. 450710-0830, Borgartúni 26, 105 Reykjavík („Landslög“) gera með sér svofelldan

 

samning um lögmannsþjónustu
og verkefni tengd rekstri málsóknarfélagsins.

 

1. gr. Höfðun og rekstur dómsmáls

Með samningi þessum felur málsóknarfélagið Landslögum að höfða fyrir hönd málsóknarfélagsins dómsmál á hendur Björgólfi Thor Björgólfssyni til viðurkenningar á skaðabótaskyldu og til greiðslu málskostnaðar. Verði fallist á bótaskyldu skulu Landslög einnig annast um samningagerð um uppgjör skaðbóta og málshöfðun til heimtu bóta sé það nauðsynlegt. Samningur þessi veitir Landslögum og lögmönnum félagsins fullt og ótakmarkað umboð til að koma fram fyrir hönd málsóknarfélagsins gagnvart innlendum dómstólum og utan réttar, til útgáfu réttarskjala, og til að stofna til fjárhagslegra skuldbindinga í tengslum við málareksturinn. Þá veitir málsóknarfélagið Landslögum umboð til að semja um bætur fyrir hönd málsóknarfélagsins og félagsmanna, en samningur um bætur skal vera með fyrirvara um samþykki stjórnar málsóknarfélagsins og eftir atvikum félagsfundar.

Við undirritun samnings þessa liggja fyrir gögn á grundvelli umsvifamikillar gagnaöflunar Landslaga og drög að stefnu sem hefur að geyma ítarlega lögfræðilega greining á þeim atvikum sem liggja til grundvallar fyrirhugaðri málshöfðun. Afrakstur þeirrar vinnu er eign Landslaga og nýtur verndar reglna höfundaréttar. Með samningi þessum samþykkja Landslög að málsóknarfélagið geti nýtt fyrirliggjandi afrakstur framangreindrar vinnu í tengslum við fyrirhugaða málshöfðun og rekstur málsóknarfélagsins. Afhending umræddra gagna til þriðja aðila er háð samþykki Landslaga og er Landslögum heimilt að binda afhendingu þeirra skilyrðum um trúnaðarskyldu móttakanda og bann við notkun þeirra til annars en að ná fram yfirlýstu markmiði málsóknarfélagsins.

2. gr. Umsjón og rekstur málsóknarfélagsins

Málsóknarfélagið felur Landslögum að halda utan um rekstur málsóknarfélagsins í samráði við ákvarðanir stjórnar málsóknarfélagsins og ákvarðanir félagsfunda. Meðal verkefna eru:

i. Veiting upplýsinga um starfsemi málsóknarfélagsins til félagsmanna og út á við þ.m.t. að halda úti heimasíðu, senda upplýsingar til félagsmanna og almannatengsl.

ii. Skráning félagsmanna og umsjón með félagatali.

iii. Ritun og umsjón með skjalagerð í tengslum við starfsemi málsóknarfélagsins.

iv. Undirbúningur og framkvæmd funda félagsmanna og stjórnar málsóknarfélagsins.

v. Umsjón með fjárreiðum málsóknarfélagsins: Landslög munu varðveita fé málsóknarfélagsins og verða hverskyns ráðstafanir þess bókhaldslega færðar á sérstakan viðskiptareikning málsóknarfélagsins í samræmi við reglugerð um fjárvörslureikninga lögmanna o.fl. nr. 1192/2005.

Samningur þessi veitir Landslögum og starfsmönnum þeirra fullt og ótakmarkað til að koma fram fyrir hönd málsóknarfélagsins og skuldbinda það fjárhagslega í tengslum við þau verkefni sem falla undir samning þennan. Landslög skulu taka við greiðslu félagsgjalda. Þá er Landslögum heimilt eftir atvikum að leggja fram fé fyrir vegna fjárhagslegra ráðastafanna félagsins og til að taka fé af fjármunum félagsins til endurgreiðslu útlagðs kostnaðar.

3. gr. Kostnaður af stofnun og rekstri málsóknarfélagsins

Málsóknarfélagið ber kostnað af stofnun félagsins, fundum félagsmanna og stjórnar og skráningu réttinda félagsmanna, sem og annan útlagðan kostnað af starfsemi félagsins, s.s. af auglýsingum og rekstri dómsmáls annan en þann sem fellur undir þóknun Landslaga skv. 4. gr. Um þóknun til Landslaga fer samkvæmt 4. gr.

4. Þóknun Landslaga

1. Fyrir rekstur dómsmáls:

Fyrir vinnu Landslaga í þágu málsóknarfélagsins, við reksturs dómsmáls skv. 1. gr., og við að semja um uppgjör bóta eða höfða sjálfstætt mál til heimtu skaðabóta, ef það er nauðsynlegt, skal greitt fast gjald kr. 20m (fyrir utan virðisaukaskatt) auk 10% af dæmdum eða umsömum skaðabótum (inni í því hlutfalli er virðisaukaskattur af málflutningsþóknun). Fyrrgreint hlutfall reiknast af heildarbótafjárhæð, þ.e. höfuðstól, vöxtum, dráttarvöxtum og málskostnaði, að engu undanskyldu. Inni í þóknun Landslaga er allur venjulegur útlagður kostnaður af rekstri máls fyrir dómstólum, en ekki annar útlagður kostnaður s.s. kostnaður í tengslum við stefnubirtingu erlendis reynist hennar þörf, kostnaður af öflun mats sérfræðinga hvort sem væru dómkvaddir eða ekki. Landslögum er ekki heimilt að stofna til slíks kostnaðar án samþykkis stjórnar félagsins.

Föst greiðsla til Landslaga skal innt af hendi þannig:

a. Við þingfestingu máls til viðurkenningar á bótaskyldu, kr. 10.000.000, auk vsk.

b. Er efnisleg niðurstaða héraðsdóms liggur fyrir kr. 5.000.000 auk vsk.

c. Er endanleg efnisleg niðurstaða dómstóla um bótaskyldu liggur fyrir, kr. 5.000.000 auk vsk.

Vinnist málið skal hagsmunatengd þóknun (10%) dregin frá við uppgjör á skaðabótum. Séu bætur greiddar beint til félagsmanns í málsóknarfélaginu skal þóknun Landslaga greidd samtímis móttöku félagsmanns á greiðslu.

Dráttarvextir reiknast á gjaldfallna þóknun Landslaga 10 dögum eftir gjalddaga, skulu dráttarvextir vera skv. 1. mgr. 6.gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Uppsögn samnings þessa skv. 6. gr. raskar ekki rétti Landslaga til þóknunar skv. þessari grein.

2. Þóknun og endurgreiðsla útlags kostnaðar fyrir að halda utan um félagið:

Fyrir að taka við skráningum á félagsmönnum, innheimtu félagsgjalds, útbúa umboð og sækja staðfestingar á hlutafjáreign til Verðbréfaskráningar Íslands skal félagið greiða til þóknun sem skal vera kr. 5.000 fyrir hvern félagsmann. Fjárhæð þessi er með vsk.

Félagið skal endurgreiða Landslögum allan útlagðan kostnað af umsjón með félaginu, félagsfundum og stjórnarfundum. Einnig vegna auglýsinga og kynninga á málarekstri.

Sinni Landslög annarri vinnu vegna reksturs félagsins skal greitt fyrir hana samkvæmt samkomulagi hverju sinni.

5. gr. Tilkynningar

Upplýsingar og tilkynningar á grundvelli samnings þessa skulu sendar með tölvupósti á eftirfarandi aðila:

f.h. málsóknarfélagsins: xxxx,xxxx, form. stjórnar (xxxxx@xx.is)

f.h. Landslaga: Jóhannes Bjarni Björnsson, hæstaréttarlögmaður (jbb@landslog.is)

6. gr. Gildistími

Samningur þessi er ótímabundinn og rennur ekki úr gildi fyrr en að fenginni

(i) endanlegri niðurstöðu dómstóla um bótaskyldu og fjárhæð bóta gagnvart félagsmönnum og endanlegu uppgjör á grundvelli hennar,

(ii) sátt milli málsóknarfélagsins og félagsmanna þess og stefnda auk endanlegs uppgjörs á grundvelli hennar.

Samningurinn er uppsegjanlegur af hálfu málsóknarfélagsins. Við uppsögn samningsins falla í gjalddaga eftirstöðvar fastrar þóknunar Landslaga miðað við kr. 25m heildargreiðslu skv. 4. gr. auk þess sem Landslög skulu áfram eiga rétt til að fá 10% hlutdeild í dæmdum eða umsömdum skaðabótum í samræmi við ákvæði 4. gr.

7. gr. Lög og varnarþing

Um samning þennan gilda íslensk lög og rísi ágreiningur um hann skulu aðilar leita sátta en verði hann ekki leystur á 30 dögum er heimilt að bera ágreining undir Héraðsdóm Reykjavíkur.

Reykjavík, 19. júní 2015

f.h. málsóknarfélagsins f.h. Landslaga

í stjórn