Seljendur fasteignar sýknaðir af gallakröfu

birt 17. október 2020

Héraðsdómur hefur sýknað seljendur fasteignar af gallakröfu kaupanda sem nam tæpum 11 milljónum króna. Ágreiningur málsins laut að um 40 ára gamalli fasteign sem seld var árið 2016. Seint á árinu 2017 tilkynnti lögmaður kaupanda seljendum að verulegir gallar væru á fasteigninni, bæði á múrhúð fasteignarinnar og þaki. Kaupandi dómkvaddi matsmann sem komst að þeirri niðurstöðu að steypa hússins væri alkalívirk og viðkvæm fyrir frosti og því hefðu viðgerðir sem seljendur hefðu látið gera á útveggjum hússins árið 2012 ekki haldið. Þá taldi matsmaður þak fasteignarinnar leka.

Varðandi kröfu vegna galla í þaki fasteignarinnar vísaði fjölskipaður héraðsdómur til þess að kaupandi hefði gert fyrirvara í kauptilboði um nánari skoðun. Kaupandi skoðaði svo fasteignina með bróður sínum sem er húsasmíðameistari með 30 ára reynslu. Hafi þetta leitt til þess að skoðunarskylda kaupanda varð ríkari en ella. Þá vísaði héraðsdómur til ummæla dómkvadds matsmanns um að þak hússins leki og hafi lekið lengi. Er því jafnframt lýst í matsgerðinni að ummerki um galla í þakrými hefðu ekki leynt sér ef kaupandi hefði farið þangað upp. Í ljósi ummæla matsmanns um þakrými hússins og sjáanleika skemmdanna og með vísan til ríkari skoðunarskyldu kaupanda var talið að kaupandi hafi vanrækt skyldu sína til skoðunar á þaki og þakrými húss.

Öðru máli gegndi um skemmdir á steypu og múr sem dómurinn taldi að kaupandi hefði ekki getað séð við skoðun með reyndum húsasmíðameistara. Héraðsdómur taldi ekkert liggja fyrir í málinu sem gæfi til kynna að seljendur hefðu vitað að steypa hússins væri alkalívirk og frostviðkvæm. Það var því ekki talið að seljendur hefðu vanrækt upplýsingaskyldu sína við sölu fasteignarinnar. Ekki var talið að gallar á steypu og múr hússins rýrðu verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varðaði, þ.e. gallarnir voru ekki yfir svokölluðum gallaþröskuldi, og því ekki um galla að ræða í skilningi laga um fasteignakaup. Seljendur voru því sýknaðir af gallakröfu kaupanda.

Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður gætti hagsmuna seljenda í málinu. Hildur Ýr hefur flutt tugi dómsmála á öllum dómstigum sem varða fasteignakaup og hefur kennt fasteignakauparétt við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 2010.