Sveinbjörn Claessen lýkur námi í sjórétti

birt 9. september 2025

Sveinbjörn Claessen, lögmaður og einn eigenda Landslaga, lauk sl. vor námi í sjórétti við Oslóarháskóla í Noregi. Um er að ræða þriggja anna meistaranám (LL.M) í lögfræði með áhersla á sjórétt.

Í náminu er athyglinni beint að þeim kjarnafögum sem heyra undir sjó- og flutningarétt, s.s. ábyrgðargrundvöll vegna tjóna sem atvikast í siglingum, takmörkun ábyrgðar útgerðarmanns, mengunartjón, árekstur skipa, sjóvátryggingar o.s.frv. Til viðbótar sátu nemendur kennslu á sviði Evrópu- og samkeppnisréttar ásamt því að þreyta mánaðarlangt raunhæft málflutningsverkefni.

Lokaverkefni Sveinbjörns fólst í því að skrifa ritgerð þar sem bornar eru saman íslenskar skipatryggingar við þær skipatryggingar sem skipaeigendum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku bjóðast á grundvelli The Nordic Marine Insurance Plan (NP), sem er staðlaður samningur vátryggjenda og skipaeigenda í löndunum fjórum. Samandregin niðurstaða ritgerðarinnar er sú að íslensku skilmálarnir gætu notið góðs af frekari þróun í samræmi við skilmála NP, sem hafa verið mótaðir og betrumbættir í meira en 150 ár.

Sveinbjörn lauk náminu með hæstu einkunn.

Á Landslögum starfar teymi sérfræðinga á sviði sjó- og flutningaréttar með áralanga reynslu af rekstri dómsmála á réttarsviðinu sem og af störfum flutningsaðila. Um þá má nánar lesa hér.